Eyvör
National Coordination Centre Iceland (NCC-IS)
National Coordination Centre Iceland (NCC-IS)
Fjarskiptastofa hefur nú tekið við forystu fyrir Eyvör NCC-IS, hæfnisetri í netöryggi á Íslandi, og fagnar þeim breytingum sem kynntar voru á fundi innviðaráðherra með stjórn, stýrihópi og fagráði Eyvarar NCC-IS. Meðal helstu breytinga er skipun nýrrar stjórnar, undirritun uppfærðra úthlutunarreglna fyrir netöryggisstyrki og ákvörðun um að hæfnisetrið heyri formlega undir Fjarskiptastofu.
Eyvör NCC-IS er hæfnisetur í netöryggi, áður nefnt samstarfs-vettvangur fræðslu, menntunar og rannsókna á sviði netöryggis á Íslandi. Markmið samstarfsins er að efla netöryggisgetu á landsvísu og styðja við íslenskt netöryggissamfélag sem og að tryggja öflugt Evrópusamstarf á sviði netöryggismála. Eyvör NCC-IS er stofnað á grundvelli reglugerðar ESB 2021/887 og mun vinna í nánu samstarfi við Hæfnisetur Evrópu í netöryggi (e. European Cybersecurity Competence Centre – ECCC).
Eyvör NCC-IS mun markvisst styðja við íslenska aðila úr atvinnulífinu, rannsóknasamfélaginu og hinu opinbera í að efla rannsóknir og auka hæfni, þekkingu og þróun á sviði netöryggis. Eyvör NCC-IS mun m.a. sjá um rekstur netöryggisstyrkja og auðvelda íslenskum hagsmunaaðilum aðgengi að alþjóðlegum sóknarfærum.
Gildin hjá Eyvöru NCC-IS eru að styðja við fyrirtæki og stofnanir með samtakamætti netöryggissamfélagsins og styðja við nýsköpun í netöryggi. Við erum með skýra framtíðarsýn og stefnum að því að íslensk fyrirtæki, háskólar og vísindafólk verði meðal leiðandi aðila á heimsvísu í netöryggi.
Með sameiginlegu átaki samstarfsaðila getur Eyvör NCC-IS, með nauðsynlegri stjórnsýslugetu, aðgangi að tækni og sérfræðiþekkingu atvinnulífsins sem og rannsóknasamfélagsins, byggt upp og stutt við skilvirkt þekkingarsamfélag á sviði netöryggismála á Íslandi.